top of page

Áskorun til Fagráðs um velferð dýra vegna blóðmera

27. júl. 2023

Samtök um dýravelferð á Íslandi skora á Fagráð um velferð dýra (FVD) að skoða eftirlit
MAST við blóðtökur á vegum Ísteka og ýmsa aðra anga þeirrar iðju.

Blóðmeraiðnaður

Í nóvember 2021 birtu dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation (AWF) og

Tierschutzbund Zürich (TSB) myndbandið sitt sem sýndi skelkaðar hryssur reknar í

blóðtökubásar, þær barðar og bundnar upp. Gríðarlegt magn af blóði er tekið úr þeim en

blóðtökuhryssur eru bæði fylfullar og mjólkandi. PMSG (eCG) fæst úr blóði hryssna, hormón

sem eykur frjósemi og þar með framleiðni í þauleldi. Ísland er eina landið í Evrópu sem

stundar þennan iðnaði og Ísland fer gegn öllum alþjóðlegum fagleiðbeiningum um magn og

tíðni blóðtaka.

Matvælaráðherra setti reglugerð um blóðtökur úr fylfyllum hryssum sem ber þann keim að

látið var undan þrýstingi frá þeim stunda iðnaðinn og græða á því:

• Ennþá má taka 5L af blóði úr hryssunum allt að 8 sinnum með viku millibili sem er rúmlega

tvölfalt meira magn en alþjóðlegar leiðbeiningar segja til um.

• Umdeilda „hvatakerfið“ má vera áfram (meira blóð úr hverri hryssu = hærra verð).

• Blóðrauða- og/eða blóðkornahlutfalli þarf aðeins að taka annað hvert ár, ekki á hverju ári

eins og krafist var í drögunum.

• Ennfremur er ekkert myndbandseftirlit eins og Fagráð um velferð dýra gerði kröfu um (nóv

2021).

• Sú viðbót að blóðbændur ættu einnig að vera leyfisskyldir hefur verið afturkölluð.

• Enn er engin krafa um lágmarks-tamningu í reglugerðinni til að létta á álagi í

blóðtökubásunum. Þetta hefur verið krafa frá Félagi dýralækna (DÍ) og SDÍ á fundi með

starfshópnum 2022.

Rannsókn á Keldum

Óháð rannsókn á blóðhag hryssanna á Keldum sem Matvælaráðuneytið fyrirskipaði er að

okkar mati ófullnægjandi og niðurstöðum á ekki að skila fyrr en í haust, þegar næsta

blóðtökutímabil er að enda. Samtök um dýravelferð sendu Matvælaráðuneyti tillögu að

rannsókn sem yfir 30 dýralæknar og læknar studdu. Við gagnrýnum harðlega að niðurstöður

munu ekki liggja fyrir fyrr en blóðtökutímabilinu lýkur, en einnig að lífsmörk séu ekki mæld

og að engin afstaða sé tekin til S-járns eða S-ferritíns í blóði.

Eftirlit við blóðtökurnar

Kaflinn um eftirlitið við blóðtökurnar í skýrslu starfshóps sem sérgreinadýralæknir hrossa átti

sæti í, vekur fleiri spurningar en að hann svari þeim. Þar af leiðandi hafa samtökin ítrekað

beðið um svör varðandi þetta eftirlit.

Fyrsta fyrirspurn er send 1.11.22 svo ítrekað 23.1.2023. Engar upplýsingar bárust.

Í millitíðinni kemur í ljós að fjöldi hryssa drápust við blóðtökurnar sumarið 2022.

Aftur sendum við ítrekun við spurningum okkar til MAST 4.7.2023 og loksins staðfestir MAST

að í fyrra drápust 7 hryssur og að þessar upplýsingar hafa legið fyrir síðan í nóvember 2022.

Þann 5. júli 2023 fáum við svar frá sérgreinadýralækni hrossa, Sigríði Björnsdóttur:

„Afföll á hryssum:

Sjö dauðsföll á hryssum voru skráð í tengslum við blóðtökuna, sem er umtalsverð fjölgun frá

fyrri árum. Að meðaltali hafa afföll hryssna undanfarin ár verið undir 0,1% en voru nú 0,2%.

Matvælastofnun barst tikynning símleiðis frá Arnþóri Guðlaugssyni þann 05.09.2022 um að

5 hryssur hefðu drepist í tengslum við blóðtöku en tvær áttu eftir að bætast við þannig að í

skriflegri skýrslu sem barst stofnuninni 15.11.2022, voru tilkynnt dauðsföll 7 talsins.

Ekki liggja fyrir afgerandi niðurstöður um orsakir dauðsfallanna og möglega voru þau af

ólíkum orsökum. Í einu tilfelli var dauðfall þó rakið til mistaka við sjálfa stunguna eða

óhappa atviks þar á eftir. Atvikið átti sér stað hjá dýralækni sem ráðinn hafði verið til

verksins án sérstakrar reynslu eða þjálfunar í blóðtöku en dýralæknirinn var með tímabundið

starfsleyfi hér á landi á grundvelli EES samningsins.“

Samkvæmt greinum sem birtust í Heimildinni þann 14.7.2023 bætast svo ein – tvær hryssur

við þannig að heildartalan er að a.m.k. 8 hryssur sem drápust við eða stuttu eftir

blóðtökurnar sumarið 2022. Tölur eru háð eigin eftirliti Ísteka. Þar sem hryssurnar voru

grafnar strax eftir dauða var krufning ekki framkvæmd.

Við erum ósátt við að upplýsingar bárust okkur svona seint þó að þær hefðu legið fyrir í

hálft ár.


Við hörmum að MAST virðist ekki hafa áhyggjur af aukningu dauðsfalla í faginu. Eðlilegt

væri að MAST færi fram á að orsök allra dauðsfalla í þessum iðnaði væri staðfest af hálfu

fagaðila.

Samtök um dýravelferð skora þar af leiðandi á Fagráð um velferð dýra sem hefur það

lögbundna hlutverk „að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök

álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra“ að skoða blóðmeraiðnaðarinn frá grunni.

Við viljum líka benda á það að þangað til 2019 virtist það samþykkt að hálfu MAST og FVD

að blóðmerar heyrðu undir reglugerð 460/2017. Við viljum benda á það að ESA,

Eftirlitsstofnun EFTA, hefur tekið í saman streng og telur að blóðmerar heyri undir

reglugerð 460/2017.

Stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi

Ályktun-SDI-FVD-júli-2023
.pdf
Download PDF • 209KB

bottom of page