top of page

Samþykktir félagsins

Félagið var stofnað 9. febrúar 2022. Stofnfélagar eru Birta Flókadóttir, Björn M. Sigurjónsson, Meike Witt, Ólafur Róbert Rafnsson, og Rósa Líf Darradóttir.

1.gr.
Félagið heitir “Samtök um dýravelferð á Íslandi”, skammstafað SDÍ (enska “Animal Welfare Iceland”, skammstafað AWI) og er varnarþing þess í Reykjavík.


2. gr.
Tilgangur félagsins er að vinna að bættri velferð dýra og standa vörð um að réttindi þeirra séu virt.
Enginn atvinnurekstur er hjá félaginu og er eingöngu um félagasamtök að ræða.


3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að:
• Standa fyrir fræðslu og upplýsingamiðlun um velferð dýra, bæði á íslensku og ensku.
• Taka virkan þátt í umræðu um málefni dýra í fjölmiðlum og meðal opinberra aðila.
• Eiga í samstarfi við í alþjóðleg samtök um dýravelferð.
• Hvetja til og koma á reglulegu samstarfi á milli félaga sem tengjast dýravelferð í þeim tilgangi að auka samtakamátt þeirra sem tengjast málaflokknum.


4. gr.
Félagar geta orðið allir þeir einstaklingar og skráð félög sem vilja vinna að velferð og réttindum dýra í samræmi við hlutverk samtakanna skv. samþykktum þessum. Atkvæðis- og tillögurétt á fundum hafa skráðir félaga sem greitt hafa árlegt félagsgjald. Félagsmenn öðlast kjörgengi eftir eins árs aðild. Hver félagi fer með eitt atkvæði og er honum óheimilt að
framselja atkvæði sitt öðrum. Heimilt er að vísa einstaklingi úr félaginu hafi hann gerst brotlegur við lög um velferð dýra.


5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn skila yfirliti yfir verkefni ársins.


6. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
• Kosning fundarstjóra og fundarritara.
• Skýrsla stjórnar lögð fram.
• Reikningar lagðir fram til samþykktar.
• Lagabreytingar.
• Ákvörðun félagsgjalds.
• Kosning stjórnar.
• Önnur mál.


Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. maí ár hvert og skal boða til hans með minnst fjögurra
vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti fullgildra
félagsmanna sem mæta til aðalfundar ráða úrslitum mála annarra en þeirra þar semsamþykktir kveða á um annað.
Tillögur að lagabreytingum skulu berast stjórn, með formlegum hætti a.m.k. þremur vikum
fyrir boðaðan aðalfund. Lagabreytingar skal samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða.


7.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda. Stjórnarkjör skal fara fram á aðalfundi. Formaður skal kosinn árlega en tveir stjórnarmenn annað hvert ár og skiptir stjórn með sér verkum að öðru leyti. Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga. Formaður boðar til funda og er firmaritun í höndum meirihluta stjórnar. Komi fram vilji 1/3 félagsmanna um auka aðalfund er stjórn skylt að kalla saman auka aðalfund en stjórn getur einnig boðað til auka aðalfundar telji hún það nauðsynlegt og gilda sömu reglur og við boðun árlegs aðalfundar. Unnt er að kjósa með rafrænum hætti á fundum félagsins og er það stjórnar að tryggja rétta framkvæmd þess. Tekið skal fram í fundarboði hvernig félagsmenn geti tekið þátt í fundum á rafrænan hátt.


8.gr.
Ákvörðun um upphæð félagsgjalds skal tekin á aðalfundi. Stjórn heldur skrá um félagsmenn með þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að kalla félaga til fundar. Fundarboð til aðalfundar, félagafundar og annarra viðburða skal senda rafrænt á félagsmenn.


9. gr.
Félagsgjöldum og fjármunum félagsins skal varið til þeirra verkefna sem samræmast tilgangi og markmiði þess. Í samræmi við reglur um aðalfund skal stjórn greina frá helstu verkefnum félagsins og bera stærri ákvarðanir undir atkvæði fundarmanna. Félaginu er heimilt að afla fjár til einstakra verkefna.


10. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða og renna eignir þess til málefnis í þágu dýravelferðar á Íslandi.


Samþykkt á stofnfundi þann 9. febrúar 2022

bottom of page