top of page

Áskorun um tafarlausar aðgerðir í Borgarbyggð

1. sep. 2022

Samtök um dýravelferð á Íslandi taka heilshugar undir áskorun Dýraverndarsamband Íslands til Matvælastofnunar (MAST) um tafarlausar aðgerðir vegna vanrækslu hrossa í Borgarbyggð.

Því miður er þetta eitt af mörgum málum þar sem MAST bregst við ábendingum um illa meðferð dýra með seinagangi eða aðgerðaleysi. Fyrir vikið þjást dýrin enn lengur. Við krefjumst þess að MAST nýti þær lagaheimildir sem stofnunin hefur og bregðist við með viðeigandi hætti. Skv. 38 gr. laga um velferð dýra er Matvælastofnun heimilt að taka dýr úr vörslu umráðamanns ef stofnunin telur að úrbætur þoli enga bið. Við lýsum yfir vantrausti okkar á hæfi stofnunarinnar til að sinna eftirlitshlutverki sínu í málaflokki þessum. Staða dýravelferðar á Íslandi er ekki eins góð og margir vilja halda og er nauðsynlegt að stjórnvöld fari að huga betur að þessu mikilvæga málefni. Siðferðisleg krafa um velferð dýra eykst sífellt í takt við vitundarvakningu samfélagsins um aðbúnað þeirra. Það er tími til kominn að ill meðferð dýra hafi í för með sér afleiðingar sem endurspegla alvarleika málsins. Samtökin fagna ákvörðun ríkisendurskoðunar um að hefja frumkvæðisúttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð dýra.

bottom of page