Styður þú verksmiðjubúskap þessi jól?
1. des. 2022
Samtök um dýravelferð á Íslandi (SDÍ) standa að vitundarvakningu gegn verksmiðjubúskap í svínarækt. Áætlunin er að nota desembermánuð í að vekja athygli á slæmri meðferð svína í matvælaiðnaði og hvetja fólk til þess að sleppa hamborgarhryggnum þessi jól.
Fróðleikur um svín
Svín eru greind og skemmtileg dýr. Þau eru mjög félagslynd og hafa meiri vitsmuni en hundar. Með vísindarannsóknum hefur verið sýnt fram á að þau hafa greind á við þriggja ára börn. Þau geta lært að spila tölvuleiki og kunna að meta tónlist. Þau dreymir og vilja helst kúra saman með trýni við trýni. Svín hafa fjölbreytta skapgerð og persónueinkenni eru margvísleg. Gylltur aðgreina grísi sína á fyrsta degi og nota mismunandi hljóð til að kalla á þá. Grísirnir læra að þekkja kall móður sinnar á öðrum degi. Gyltur er umhyggjusamar mæður og þær “syngja” fyrir grísi sína. Grísir eru leikglaðir og þeir hafa mikla hreyfiþörf. Svín dilla hala sínum þegar þau eru glöð. Öfugt við það sem margir halda eru svín mjög hreinlát.
Verksmiðjubúskapur á Íslandi
Svín búa við hörmulegar aðstæður í þauleldi verksmiðjubúa á Íslandi. Innilokuð í þröngum stíum hafa þau enga möguleika til að stunda sitt eðlilega atferli. Þeim er aldrei hleypt út og geta því aldrei andað að sér fersku lofti. Þau fá ekki að leika sér við eðlilegar aðstæður eða róta í moldinni með trýninu sínu. Gylturnar gjóta allt að þrisvar sinnum á ári. Þær dvelja langdvölum í stíum sem eru svo þröngar að þær geta ekki snúið sér við. Þær geta einungis staðið upp og lagst niður. Þær geta ekki hnusað af grísum sínum sem sjúga spena í gegnum rimla. Tennur grísa eru slípaðar niður. Hali þeirra er klipptur án deyfingar af starfsfólki verksmiðjubúa. Það er í trássi við lög og reglur en slíkar aðgerðir skal framkvæma af dýralæknum séu þær nauðsynlegar og ávallt skal nota deyfilyf. Halaklipping er sársaukafull aðgerð þar sem bein er klippt af dýrinu. Þessi hreinlátu dýr eru svo látin dúsa í þröngum stíum í úrgangi sínum. Aðbúnaður svína í verksmiðjubúskap er miklu verri en reglugerðir gera ráð fyrir. Á svínabúum Íslands er það frekar regla en undantekning að reglugerð um velferð svína sé brotin. Í skýrslu Matvælastofnunnar frá árinu 2015 kom fram að önnur hver gyllta þjáðist af legusárum og að svínin væru léleg í fótunum vegna hreyfingarleysis.
Lokaskref framleiðslunnar er aflífun sem oftast fer fram í gasklefa við hræðilegar aðstæður. Í gasklefum má kæfa hóp svína en dauðastríð þeirra tekur allt að 60 kvalarfullar sekúndur. Gasið er mjög ertandi og veldur sviða í slímhúðum og mikilli andnauð. Á Íslandi eru um 80.000 svínum slátrað árlega.
SDÍ hvetja fólk til þess að draga úr neyslu á svínakjöti. Með því að hafna kjöti sem verður til við óásættanlegar aðstæður fá framleiðendur skýr skilaboð um að hverfa til búskapar þar sem betur er búið að dýrunum. Öll dýr eiga skilið líf sem er þess virði að lifa.
Höfnum verksmiðjubúskap og sleppum hamborgarhryggnum þessi jól.
Fylgist með á instagram og facebook aðgangi samtakanna á @dyravelferd