Yfirlýsing: Stöðvið hvalveiðar strax
9. maí 2023
Við krefjumst þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur banni hvalveiðar fyrir fullt og allt. Í nýútkominni skýrslu MAST „Eftirlitsskýrsla- Velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022” kemur fram að veiðiaðferðir Hvals hf. leiði til hryllilegra og langdreginna dauðastríða hvala; aðferðirnar stríða gegn lögum um velferð dýra svo ekki verði um villst.
Hvalveiðar fara gegn lögum um velferð dýra
Samkvæmt skýrslunni uppfylla veiðiaðferðir Hvals hf. engan veginn kröfur sem dýravelferðarlög setja um aflífunaraðferðir. Frávikin eru svo tíð að frekar er um að ræða reglu en undantekningu.
Af þeim 148 hvölum sem voru veiddir í fyrra, voru 36 langreyðar (24%) skotnar oftar en einu sinni með sprengiskutli. Þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir hvalir skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í 5 klukkustundir án árangurs. Miðgildi tíma frá fyrsta skoti til dauða hvala þeirra sem drápust ekki strax var 11,5 mínútur og dauðastríð varði í allt að tvær klukkustundir. Þrír hvalir voru skotnir en náðust ekki og hafa háð langt og kvalafullt dauðastríð. Hryllileg meðferð á dýrum með þessum hætti er óásættanleg. Einboðið verður að teljast að afturkalla leyfi til hvalveiða.
Hvalveiðar ógna loftslaginu og lífríki hafsins
Hvalir gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni sem er ein af helstu ógnum við okkar samfélag. Með lífsferli sínu bindur eitt stórhveli um 33 tonn af kolefni eða á við 1,500 tré. Sömuleiðis gegna þeir lykilhlutverki í fæðukeðju hafsins. Með því að kafa á sjávarbotn og ferðast um höfin framleiða hvalir næringarrík úrgangský sem styrkja svif og önnur smádýr, fjölgun þeirra styrkir fiskistofna, stóra sem smáa, og á endanum hvalina sjálfa. Þegar hvalir enda lífdaga sína í hafinu sjálfu og sökkva til botns binda þeir mikið magn kolefnis til langs tíma. Hvalir gefa meira en þeir taka. Þeir stuðla að heilbrigðu lífríki sjávar og hafa lifað í jafnvægi við umhverfi sitt í tugi milljóna ára.
Forsendur fyrir hvalveiðum eru algjörlega brostnar og við getum ekki sem þjóð leyft þessu að viðgangast lengur, við undirrituð krefjumst þess að veiðarnar verði stöðvaðar tafarlaust.
Náttúruverndarsamtök Íslands
Samtök grænkera á Íslandi
Samtök um dýravelferð á Íslandi
Ungir umhverfissinnar
Félag lækna gegn umhverfisvá
Frekari upplýsingar veita:
Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka Grænkera á Íslandi
s. 6980390 / netfang: graenkeri@graenkeri.is
Rósa Líf Darradóttir, stjórnarmeðlimur Samtaka um dýravelferð á Íslandi
s. 8244793 / netfang: dyravelferd@dyravelferd.is
Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna
s. +31634336825 / netfang: finnur@umhverfissinnar.is