top of page

Yfirlýsing vegna slátrunar hrossa í neyð í Borgarbyggð

20. okt. 2022

Samtök um dýravelferð á Íslandi gagnrýna harðlega seinagang MAST sem leiddi til þess að aflífa þurfti hluta þeirra hrossa er hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST, hélt því fram í viðtali fyrir stuttu að málið hafi verið tilkynnt til MAST síðla sumars en sú staðhæfing stangast á við frásögn aðila sem upplýsti búfjáreftirlitsmann um aðbúnað dýranna þann 17. júní og hefur ítrekað erindið margsinnis eftir það. Samkvæmt 38. gr. laga um velferð dýra, hefur MAST heimildir til að taka dýr úr vörslu umráðamanns sökum vanfóðrunar. Einnig gefur 37. grein MAST heimild til að beita öðrum úrræðum ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests, t.d. vörslusviptingu og flutningi af staðnum. MAST hefur einnig heimild til að bjóða dýr upp, selja þau til lífs eða slátrunar eða látið aflífa þau sé ekki unnt að ráðstafa þeim á annan hátt. Þess ber að nefna að fyrrverandi eigendur nokkurra hrossa höfðu boðist til þess að taka að sér þau hross sem áður seldu í góðri trú. Ekki var haft samband við þau áður en þeim var slátrað. Eftir eru u.þ.b 28 hross, þar af 10 metin í viðkvæmu ástandi, fjöldi kinda og nautgripa. Samkvæmt nágrönnum heyrist í hungruðum kúm á bænum sem hafa ekki fengið að fara út í þrjú ár. Umrætt mál er aðeins eitt af mörgum þar sem MAST bregst við ábendingum um illa meðferð dýra með seinagangi eða aðgerðaleysi. Við krefjumst þess að MAST nýti þær lagaheimildir sem stofnunin hefur áður en dýr eru svo illa haldin að grípa þurfi til aflífunar, en það ætti vera allra síðasta úrræðið. Brýnt er að breyta verkferlum og koma dýraeftirliti frá MAST til sjálfstæðs dýravelferðasviðs. Við vekjum athygli á þingsályktunartillögu þess efnis hér: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill//?ltg=153&mnr=31&fbclid=IwAR3y1VwLktFEyqYVkR5DMItNLApqad8GOv9xkcGv0vZeJCwHkZ923YCkzgE. Við skorum á matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttur að beita sér af afli í málum dýravelferðar.

bottom of page