Yfirlýsing vegna vanrækslu hrossa í Borgarbyggð
13. okt. 2022
Samtök um dýravelferð á Íslandi kalla eftir tafarlausum aðgerðum í máli þessu. Enginn vafi er á því að Matvælastofnun (MAST) hefur þær lagaheimildir til að svipta dýr úr umsjá umráðaaðila ef úrbætur þola enga bið.
Sú afstaða að dýr njóti lagalegrar verndar er meginandlag dýravelferðarlaga. Stofnunin sem fylgir þeim lögum eftir, MAST, er eina bjargræði dýranna sem lögunum er ætlað að vernda. Það skýtur því skökku við að MAST virðist halda verndarhendi yfir mannfólki sem tekur að sér að halda dýr og veldur ekki því verkefni. Þrátt fyrir yfirlýsingar um góðan vilja MAST fylgja athafnir ekki þeim orðum. Ástand dýranna er átakanlegt en hrossin er horuð og feldurinn í slæmu ásigkomulagi eftir innilokun og vanfóðrun til lengri tíma. Þetta sést á myndum frá hugrökkum einstakling sem hefur vakið athygli á málinu og þökk sé áræðni Steinunnar Árnadóttur er ástand hrossana fyrir allra augum. Viðbrögð MAST eru ekki í samræmi við alvarleika málsins og vekja enn frekari efasemdir um úrræði stofnunarinnar til að sinna eftirliti með velferð dýra. SDÍ skorar á MAST að tryggja viðunandi aðbúnað dýranna á meðan “málið er í ferli”.